Skip to main content

Sveppaganga í Heiðmörk.

Langar þig í sveppamó ?

Fimmtudaginn 3. september kl. 18:00 - 20:00 mun Öræfingurinn Bjarni Diðrik Sigurðsson, skógvistfræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands, verða með sveppagöngu um Skaftafellslundinn í Heiðmörk. Áhugasamir félagsmenn eru hvattir til að mæta við Elliðavatnsbæinn kl. 18:00. Best er að aka að honum frá Suðurlandsvegi, um veginn við Rauðhóla. Þaðan verður síðan keyrt í samfloti að lundinum.

Bjarni Diðrik mun sýna fólki hvaða útbúnað það þarf til sveppatínslu, kenna því einföldustu grunnreglur í greiningu, hreinsun og frágangi ætra sveppa, o.fl. Síðan verður farið í stutt svepparölt um Skaftafellslundinn þar sem þátttakendur leita sveppa og Bjarni hjálpar til við greiningu matsveppa og frágang.

Auk sveppana verður lundurinn sjálfur skoðaður, en þar hafa félagsmenn unnið mikið sjálfboðastarf við grisjun og uppbyggingu útivistaraðstöðu í sumar.

Nauðsynlegur útbúnaður:
Föt og skóbúnaður sem hæfir veðri.
Beittur hnífur til að hreinsa sveppi með.
Bastkarfa, lítill pappakassi eða annað ílát sem loftar vel um til að tína matsveppi í.

bds-sveppur-01.jpgbds-sveppur-02.jpgkngssveppur.jpgbds-sveppur-03.jpg

Kurlun

Föstudaginn 24. júlí fóru þeir Skaftfellingar og frændur hjá Skógræktinni, Aðalsteinn Sigurgeirsson og Kjartan Kjartansson, í Skaftfellingareitinn og kurluðu þar allt hráviði sem lá þar við innkeyrsluna frá hreinsunardeginum í vor. 

kurlun-2009.jpg
Núna þarf að vaða í þennan haug og dreifa honum í göngustígana.  Tillaga er komin að fara í það laugardaginn 5. september, en þá eru skólar byrjaðir og mesta útstáelsið búið hjá fólki.  Fyrir þann tíma er áætlað að búið vera að ákveða og merkja hvar setja eigi kurlið.  Nánar um það síðar.
 

Hreinsunardagur í Heiðmörk

Laugardaginn 16. maí var hreinsunardagur í Heiðmörk. Um 15 manns mættu í Skaftafell í Heiðmörk á hinum árlega hreinsunardegi félagsins í einmuna blíðu. Helgi Pálsson kláraði að slétta (Stefáns)flötina og er hún að verða eins og besta tún á Síðunni. !!!  Búið er að grisja skóginn mikið á miðsvæðinu við hliðina á flötinni auk þess sem búið er að keyra möl í stíg frá bílastæði og inn að flötinni. Sá vaski hópur sem mætti náði að flytja heilu bílfarmana af greinum og trjám út að vegi en þar verður það kurlað niður og sett í göngustíga.

Félagið hvetur alla Skaftfellinga til að fara þarna uppeftir og njóta þess sem þetta svæði hefur upp á að bjóða.

 

Myndir eru komnar á myndasafnið.

Við bendum einnig á heimasíðu Heiðmerkur  www.heidmork.is 

Aðalfundur

Aðalfundur Skaftfellingafélagsins var haldinn fimmtudaginn 14. maí. Fundarstjóri var Vigfús Gunnar Gíslason frá Flögu. Ármann ritari las fundargerð síðasta aðalfundar, þá fór Skúli yfir starfsemi félagsins, sem var kraftmikil í vetur. Stefán gjaldkeri fór yfir fjárhaginn sem fór ekki varhluta af hruni bankakerfisins, en félagið stendur sterkt samt sem áður. Fýlaveisla var haldin að venju fyrsta vetrardag og þorrablót í janúar. Á báðum þessum samkomum léku fyrir dansi síungar hljómsveitir úr heimahéruðum fyrir troðfullu húsi. Þá var kennsla í Hornafjarðarmanna og mót í kjölfarið. Tvö myndakvöld með gömlum ljósmyndum og kvikmyndum úr Skaftafellssýslum. Skaftfellingamessa var haldin í Breiðholtskirkju 15. mars og komu þá prestar og söngfólk úr austursýslunni. Var sú samkoma vel sótt að vanda.
Heilmikil vinna hefur verið lögð í lagfæringar, tiltekt og skipulag í Skaftafelli, reit félagsins í Heiðmörk, en þess er vænst er að reiturinn verði tilbúinn fyrir samkomur næsta sumar þegar haldið verður upp á 70 ára afmæli félagsins.
Skýrslu Kvikmyndasjóðs flutti Erla Ásgeirsdóttir. Nú er unnið að því að endurútgefa þættina „Í jöklanna skjóli“ á DVD.
Sigurlaug Jóna Sigurðardóttir greindi frá starfsemi Söngfélagsins og Skálmar. Söngfélagið tók þátt í samkomum félagsins; Aðventustund og Skaftfellingamessu. Söngferð var að þessu sinni farin á Snæfellsnes með tvennum tónleikum í Stykkishólmi og Grundarfirði. Vortónleikar í Seltjarnarneskirkju voru svo samhliða Vorkaffi Skaftfellinga 10. maí.
Skálmar fóru í göngu í Skotlandi auk þess sem farið var á Jökulfelli í Skaftafellsfjöllum með Öræfingum.
Í lok fundarins fór Aðalsteinn Sigurgeirsson yfir skógræktina í Heiðmörk, en forsvarsmenn Skógræktarinnar hafa verið félaginu mjög velviljaðir í þeim verkum sem stefnt er að.
Heimasíðan er orðin mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins og líklega verður farið í skipulega netfangasöfnun næsta haust og í framhaldi af því verður útgáfan á fréttabréfinu minnkuð en kostnaður við útgáfu þess hefur hækkað mjög að undanförnu.
Á fundinum var núverandi stjórn endurkjörin, en hana skipa Skúli Oddsson formaður, Ármann Óskar Sigurðsson ritari, Stefán Bjarnason gjaldkeri, Helgi Pálsson og Svavar M. Sigurjónsson meðstjórnendur. Í varstjórn situr áfram Jón Geir Birgisson, en nýir í varastjórn eru Edda Sigurdís Oddsdóttir og Hákon Jón Kristmundsson

Myndir frá aðalfundinum eru komnar á myndasafnið.

Hreinsunardagur

Laugardaginn 16. maí kl. 10:00, er hreinsunardagur í Skaftafelli, reit Skaftfellingafélagsins í Heiðmörk. Búið er að grisja töluvert þannig að orkan á morgun fer í að kom því efni út að götu, þar sem það verður kurlað síðar.  Stærri tré verða sett til hliðar til að nota þau til að smíða borð og bekki.  

 Leiðin er sýnd á heimasíðunni, beygt er við Rauðhóla af þjóðveginum austur Hellisheiði og keyrt framhjá afleggjarnunum að Elliðavatnsbænum og keyrt beint áfram þar til komið er að skilti sem á stendur Hraunslóð, keyrt er þann afleggjar í átt að þjóvegnum þar til komið er að skilti á hægri hönd sem á stendur Skaftafell.    

 Fjölmennum núna í þennan unaðsreit sem við höfum forgang að.

 Það eru ekki allir sem geta komið á þessum tíma en næg verkefni eru fyrir þá sem hafa áhuga.  Því hefur komið upp sú hugmynd að virkja gestbókin í því að samræma aðgerðir, menn meldi sig þar inn og skrifað inn hvenær þeir ætli að vera uppfrá og þá geti fleiri komið og slegist í hópinn. 

Einnig gætu Skaftfellingar í framtíðinni hóað félögunum saman til að hittast uppfrá til að njóta svæðisins í skemmtilegum félagsskap, það þarf ekki bara að fara þangað upp eftir til að vinna.


Aðalfundur

Aðalfundur félagsins er fimmtudaginn 14. maí kl. 20:00.  Auk venjulegra aðalfundarstarf þá verður rætt um Heiðmerkurreitinn og hvað verður gert á afmælisárinu 2010.  Þeir sem hafa áhuga á því að starfa í félaginu eru hvattir til að mæta.

Svo minnum við fólk á hreinsunardaginn í Heiðmörk laugardaginn 16. maí kl. 10:00.