Skip to main content

Öræfaball 2009

Laugardagskvöldið 14. nóvember var blásið til Öræfaballs í Reykjavík þar sem öllum núverandi Öræfingum og brottfluttum var boðið ásamt öllum þeim hafa verið til lengri eða skemmri tíma í sveit í Öræfum. Mæting var með eindæmum góð, en ríflega 200 manns sóttu samkomuna. Á borðum voru flatkökur með hangikjöti og kleinur úr sveitinni. Stefán Bjarnason frá Hofskoti og Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Hnappavöllum sáu um dagskrána og sögðu frá lífinu í sveitinni, t.d. þegar boðun á böll var bara ein stutt í sveitasímann og þá komu allir á línuna. Síðan stigu nokkur misgömul „sveitabörn“ á svið og sögðu frá ýmsu minnistæðu, t.d. lýstu Jón Karl Snorrason flugmaður og Jón Ragnarsson rallkappi fyrstu reynslu sinni af vélknúnum faratækjum, sem var eitthvað fyrir seytján ára aldurinn!!! Einn mætur bóndi úr sveitinni hitti þarna gamlan vinnumann sem hafði verið hjá honum í nokkur sumur í kringum 1950, en síðan þá höfðu þeir hvorki sést né heyrst. Að gömlum sveitasamkomusið var fjöldasöngur sem Sr. Einar Jónsson, fyrrum kúasmali á Kvískerjum spilaði undir. Að lokinni dagskrá spilaðu nokkrir sveitastrákar fyrir dansi vel fram yfir miðnætti. Ánægja með þessa skemmtun var mikil og sögðu menn að þetta þyrfti að gera árlega. Og jafnvel er hugmynd að halda næstu Öræfinga- og sveitabarnasamkomu í sveitinni góðu.

img_9342b.jpgimg_9391b.jpgimg_9350b.jpgimg_9394b.jpg

 Myndir eru komnar inn á myndasafnið.

Nánari fréttir og fleirri myndir frá samkomunni koma síðar.

Öræfaball

Þessa dagana snýst líf og áætlanir allra Öræfinga og áhangenda þeirra um væntanlegt Öræfaball. Bókanir ganga með miklum ágætum og er farið að leggja drög að því að Skúli setji stækkun „Búðarinnar“ í flýtimeðferð. Útsendara undirbúningsnefndarinnar hefur verið falið að skoða hvort nýja tónlistarhúsið verði orðið boðlegt næstkomandi laugardag!!! Að öllu gamni slepptu verður vonandi pláss fyrir alla, en liggur þó við að hafa þurfi sama háttinn á og í gamla fundarhúsinu á Hofi, að menn hafi stóla meðferðis.

Dagskráin er að mótast, búið að tryggja spilasveit sem ætlar að tryggja að gömlu dansarnir verða stignir. Svo verða sagðar sögur, fjöldasöngur og „gamall“ sönghópur rifjar upp gamla takta. Borið verður fram kaffi og meðlæti auk þess sem bar verður opinn. 

Hér til vinstri er auglýsingin um ballið ef menn vilja nánari upplýsingar. 


Þeir sem ekki eru búnir að bóka sig geta athugað stöðuna á gestalistanum hjá Öræfingunum í undirbúningsnefdinni.

Hornafjarðarmanninn

Spilun Hornafjarðarmannans gekk vel undir styrkri stjórn Sigurpáls. Spilað var á 5 borðum og að lokum stóð Jón Bjarnason úr Ragnárvallasýslu uppi sem sigurvegari. Hann vann reyndar líka fyrir ári síðan og fékk eins og nú Hornafjarðarhumar að launum. Í öðru sæti var Sædís Vigfúsdóttir frá Höfn sem hlaut bókina Gömlu hugljúfu sveit eftir Þorstein á Reiðará. Í þriðja sæti var Gyða Valgerður Kristinsdóttir frá Höfn fékk nýjasta bindi Dynskóga, en á flipanum hér til hliðar hægra meginn geta þeir sem ekki eru eins klárir í Hornafjarðarmanna pantað þetta hefti ásamt eldri bindum.
 
Myndir eru komnar inn á myndasafnið.

Hornafjarðarmanni

Efnt verður til spila­kvölds í Hornafjarðar­manna fimmtu­daginn 5. nóvember 2009
kl. 20:00 í Skaftfellingabúð undir styrkri stjórn Sigurpáls Ingibergssonar. 

Verðlaunin verða að vanda vegleg, Hornafjarðarhumar og fleira.

Boðið verður upp á léttar veitingar í hléi. Aðgangseyrir kr. 1.000.

Fjölmennasta fýlaveislan frá upphafi

img_8923a.jpgimg_8951a.jpg

img_8987a.jpg

Árleg fýlaveisla Skaftfellingafélagsins var haldin fyrsta vetrardag, laugardaginn 24. október og heppnaðist sérstaklega vel. Með lagni tókst að koma öllum fyrir í Skaftfellingabúð.

Á boðstólum voru ljúffengir fýlar sem Sigurjón Rútsson veiddi og voru verkaðir af tengdaforeldrum hans Hrefnu og Einari í Prestshúsum. Að venju voru rófur frá Þórisholti sem er ómissandi meðlæti á fýlaveislum. Lilla í Mörk sendi flatbrauð og auk þess var hangikjet fyrir þá sem alls ekki geta hugsað sér að borða fýl, en í þeim hópi er t.d. Skúli formaður Skaftfellingafélagsins, sem snertir ekki við fýlnum sjálfum. Skemmst er frá því að segja að fýlaveislan tókst með afbrigðum vel, fólk af öllum kynslóðum skemmti sér konunglega saman og ýmsir litu við eftir borðhaldið til að taka þátt í fjörugum dansleik þar sem tvær hljómsveitir frá Vík léku undir dansi fram á rauða nótt. Þar ber fyrst að telja hljómsveitina Tónabræður og hafa þeir engu gleymt í gömlu dönsunum. (Hróbjartur Vigfússon, Þórir Kjartansson, Auðbert Vigfússon, Sigurður Árnason). Hljómsveitin Granít sem skipuð er yngri Víkurum, tók við af Tónabræðrum og léku þeir annars konar danstónlist (Bárður Einarsson, Hróbjartur Vigfússon, Sveinn Pálsson, Guðmundur Pétur Guðgeirsson, Kristinn Jóhann Níelsson).

Gestum þótti ánægjulegt að hafa þessa fjölbreytni í danstónlist, allir fengu eitthvað við sitt hæfi. Síðan er spurning hvort enn meiri þátttaka verði á næsta ári, en þá þyrfti e.t.v. að huga að öðru húsnæði.

Myndir eru komnar inn á myndasafnið.

Og svo er hægt að setja inn athugasemdir við myndir.

Fýlaveisla - Undirbúningur

img_8879a.jpgimg_8888a.jpgimg_8899a.jpg

img_8905a.jpgimg_8892a.jpg

Núna er undirbúningur að klárast enda veitir ekki af því að það stefnir í metfjölda, 180 manns á matnum, ennþá pláss á ballið.  Gott er til þess að vita að fýllinn virðist vera mjög góður þetta árið.