Skip to main content

Slóðir Guðjóns Samúelssonar í Reykjavík

Þann 19. maí n.k. kl. 20.00 stendur Skaftfellingafélagið í Reykjavík fyrir gönguferð fyrir félagsmenn um slóðir Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins í miðborg Reykjavíkur.
Gangan hefst við Leifsstyttuna efst á Skólavörðuholti, framan við Hallgrímskirkju. Gengið verður niður Skólavörðustíg og staðnæmst við heimili Guðjóns á nr. 35. við þá götu. Síðan verður haldið að nokkrum helstu byggingum hans í miðbænum og fjallað um sögu þeirra og byggingarstíl. Leiðsögumaður er Pétur H. Ármannsson arkitekt.

Guðjón Samúelsson (1887-1950) fæddist að Hunkubökkum á Síðu þann 24.  
mars 1887. Hann varð fyrstur íslendinga til að ljúka háskólaprófi í byggingarlist árið 1919.  Hann gegndi embætti Húsameistara ríkisins um 30 ára skeið, frá 1920 til 1950. Á því tímabili teiknaði hann flest stórhýsi sem byggð voru á vegum ríkisins auk fjölda smærri bygginga. Með hugmyndum sínum og verkum hafði hann víðtæk áhrif á þróun íslenskrar húsagerðarlistar á tímabilinu frá 1915 og fram yfir 1930. Hann átti sæti í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins frá stofnun hennar og á vegum hennar vann hann skipulagsuppdrætti af flestum þéttbýlisstöðum landsins á árunum 1921 til 1938. Þá var Guðjón Samúelsson upphafsmaður þess að nýta hrafntinnu, kvars og silfurberg til að húða yfirborð steinsteyptra útveggja í tengslum við byggingu Þjóðleikhússins árið 1933.

Kennsla í grisjun

Þriðjudaginn 27. apríl kl. 17:30 munu Aðalsteinn Sigurgeirsson og  Þorbergur Hjalti Jónsson sérfræðingar hjá Skógræktinni verða með kennslu í grisjun í reitunum í Heiðmörk.  Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt skulu gjarnan taka með sér verkfæri (handsagir, klippur og/eða keðjusagir).  
Með þessu hefjum við snyrtingu á reitnum okkar þetta vorið, síðan er áætlaður hreinsunardagur 8. maí og þá munum við hreinsa reitin, grisja, ganga frá grilli og bekkjum þannig að reiturinn verði kominn í sinn fínasta form 29. maí en þá munum við hittast í reitnum og gleðjast saman, meira um það þegar nær dregur. Wink

Hagyrðingakvöldi aflýst

Vegna þeirra náttúruhamfara sem ganga núna yfir suðurland og óvíst er um hvort hagyrðingarnir okkar geti komist þá hefur verið ákveðið að fresta hagyrðingamótinu (líklega fram til hausts).  

Hagyrðingakvöld

Í tilefni sjötíu ára afmælisins verður haldið hagyrðingakvöld í Skaftfellingabúð síðasta vetrardag, 21. apríl 2010, kl. 20:00, undir stjórn Ómars Ragnarssonar.
Þar leiða saman hesta sína Austur-Skaftfellingarnir Torfhildur Hólm Torfadóttir á Gerði,  Halldór Þorsteinsson í Svínafelli og Vestur-Skaftfellingarnir Heiða Guðný Ásgeirsdóttir á Ljótarstöðum og Reynir Ragnarsson í Vík. Að kveðskap loknum verður stiginn dans undir harmonikkuleik valinkunnra snillinga. 
Aðgangur ókeypis, en léttar veitingar seldar.

Sjötíu ára afmæli Skaftfellingafélagsins

Talið er að hátt á þriðja hundrað manns hafi sótt Skaftfellingamessu í Breiðholtskirkju og afmæliskaffi í Skaftfellingabúð á sjötíu ára afmæli Skaftfellingafélagsins, sunnudaginn 21. mars síðastliðinn. Prestar Breiðholtskirkju, þau sr. Gísli Jónasson og sr. Bryndís Malla Elídóttir ásamt prestum úr Vestur-Skaftafellssýslu, þeim sr. Ingólfi Hartvigssyni á Kirkjubæjarklaustri og sr. Haraldi M. Kristjánssyni í Vík þjónuðu fyrir altari, en auk þeirra kom að messuhaldinu fyrrum prestur Ásaprestakalls, sr. Hjörtur Hjartarson. Kirkjukórar úr Vestur-Skaftafellssýslu leiddu messusöng með Söngfélagi Skaftfellinga undir stjórn Brians R. C. Haroldssonar og Kára Gestssonar. 
Það var þétt setinn bekkur í Skaftfellingabúð eftir fjölmenna messu. Kristinn Kjartansson og Stefán Bjarnason tóku á móti gestum með harmonikkuleik. Formaður félagsins til 17 ára, Skúli Oddsson, bauð gesti velkomna og fljótt var gengið að drekkhlöðnu kaffiborðinu. 
Eins og mörg undanfarin ár sá Inga Jóna Sigfúsdóttir um veisluhaldið, útbjó krásir á veisluborðið ásamt Söngfélagsfólki. Söngfélagið söng fimm lög undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar og að lokum komu gestakórar úr Vestur-Skaftafellsýslu og sungu með Söngfélaginu lögin Smávinir fagrir og Brimströndin undir stjórn Kára Gestssonar kórstjóra í Vík. Að lokum sungu allir kórarnir Skaftárþing, sem er einkennislag félagsins. Stutt ávörp og árnaðaróskir fluttu Kolbrún Einarsdóttir formaður Söngfélags Skaftfellinga og Guðmundur Ingi Ingason formaður Kirkjukórs Prestbakkakirkju. 
Svavar M. Sigurjónsson stjórnarmaður hefur síðustu árin unnið ötullega að söfnun mynda frá starfi félagsins allt frá stofnun þess og þeim myndum var varpað á vegg í hliðarsal. Svavar hefur einnig safnað gömlum myndum úr sýslunum og eru þær flestar merktar. 
Er það mál manna að vel hafi til tekist og veislugestir fóru heimleiðis saddir og sælir. 
Stjórn Skaftfellingafélagsins þakkar gestum fyrir komuna og öllum þeim er að samkomunni stóðu fyrir gott starf.
Myndir frá afmælinu eru komnar inn á myndasafnið .
Einnig eru myndir frá messunni komnar á myndasafnið.  

Skaftfellingamessa og 70 ára afmæli Skaftfellingafélagsins !

Sunnudaginn 21. mars næstkomandi, á sjötíu ára afmæli Skaftfellingafélagsins í Reykjavík, koma kirkjukórar Vestur Skaftafellssýslu og syngja með Söngfélagi Skaftfellinga við messu í Breiðholtskirkju. Athöfnin hefst kl. 14:00. Að lokinni messu verður afmæliskaffi í Skaftfellingabúð að Laugavegi 178. Þar verður ýmislegt rifjað upp frá 70 ára sögu félagsins. Nánar auglýst síðar.