Skip to main content

Ganga um slóðir Guðjóns Samúelssonar

Miðvikudaginn 19. maí stóð Skaftfellingafélagið í Reykjavík fyrir göngu um miðbæinn með það að markmiði að skoða hús sem Guðjón Samúelsson fyrrverandi húsameistari ríkisins hafði teiknað. Safnast var saman á Skólavörðuholti við styttu Leifs Eiríkssonar og varð þá Hallgrímskirkja fyrst fyrir augum. Leiðsögumaður var Pétur Hrafn Ármannsson arkitekt. Frá Hallgrímskirkju var gengið niður að Skólavörðustíg 35, húsi föður hans, Samúels Jónssonar, þar sem Guðjón bjó síðan alla ævi. Þaðan var horft yfir á næsta horn að húsi sem Guðjón teiknaði fyrir Helga Bergs og handan Týsgötunnar er annað hús sem Guðjón teiknaði. Þá var staðnæmst við Skólavörðustíg 25 sem hann teiknaði fyrir Andrés klæðskera. Þá var staðnæmst neðst á Skólavörðustígnum og horft upp eftir götunni og komu fram ýmsir spádómar um hvaða hugmyndir lægju að baki hönnunar Hallgrímskirkju. Þá var horft yfir Laugaveginn að húsi nr 3, sem hann teiknaði einnig fyrir Andrés klæðskera, en þar var til langs tíma klæðskeraverkstæði og fataverslun Andrésar. Því næst var gengið í átt að Þjóðleikhúsinu og byggingu þess gerð góð skil. Þá var Arnarhváll og gamla hús Hæstaréttar skoðuð og rædd. Við Hverfisgötu á móti safnahúsinu er fyrsta húsið sem Guðjón teiknaði, og er málað áberandi svörtum og rauðum litum. Því næst var gengið niður í kvosina þar sem Landsbankinn, Reykjavíkurapótek, Hótel Borg og Landssímahúsið voru skoðuð og rædd.

Þetta var bráðskemmtileg og fróðleg ganga. Þátttakendur í göngunni voru 27 að Pétri meðtöldum.