Skip to main content

Grisjun í Heiðmörk

Þann 22. apríl síðastliðinn mætti um það bil 15 manna hópur vopnaður keðjusögum og öðrum handverkfærum á grisjunarnámskeið sem Þorbergur Hjalti Jónsson stóð fyrir í Skaftfellingareitnum. Að námskeiði loknu hófst vinna við fellingu og uppkvistun trjáa.  Brýnust er þörf á grisjun í stafafurulundinum austan við fyrirhugaða samkomuflöt og beindist vinnan einkum að því svæði. Fólk er hvatt til að koma í reit félagsins og halda áfram starfinu við grisjun og umhirðu, sjálfu sér til heilsubótar á næstu vikum, að eigin hentugleika. Með Hjalta var Aðalsteinn Sigurgeirsson frá Skógræktinni og kenndu þeir meðal annars hvernig þéttleiki skóga er metinn og þörf á grisjun. 
Stefán Bjarnason hefur sléttað móann á fyrirhugaðri samkomuflöt með léttu vinnutæki og því lítur svæðið nú út eins og kartöflugarður að vorlagi. Eftir er að slétta betur úr með garðhrífum og sá grasfræi (af fíngerðu, smávöxnu grasyrki) fyrir vorið.
Stór malarhaugur er kominn á bílastæðið og Stefán er byrjaður að bera mölina í stíga.  Búið er að merkja stóran hluta þeirra trjáa sem þurfa að víkja. Reiknað er með að fellingu þeirra trjáa verði lokið fyrir 16. maí, að því tilskyldu að til verksins fáist fleiri vinnufúsar hendur, vopnaðar keðjusögum. Reyndar myndi flýta mikið fyrir fellingu ef búið væri að uppkvista trén (hvort heldur er með keðjusög eða handsög).
Við grisjunina mun falla til mikill trjáviður sem félagið ætti að kappkosta að nýta á staðnum á ýmsa vegu. Laugardaginn 16. maí mun mesta vinnan felast í því að draga efnið út úr skóginum og flokka það eftir notagildi. Það er mikilvægt að það starf verði vel skipulagt svo komast megi hjá tvíverknaði og óþarfa fyrirhöfn.

Skaftfellingafélagið þakkar þeim Hjalta, Aðalsteini og öðrum frá Skógræktinni innilega fyrir þeirra liðssinni og áhuga sem þeir hafa sýnt þeim verkum sem framundan eru.

Munum að margar hendur vinna létt verk.

     Myndir frá grisjunardeginum eru komnar á myndasafnið.