Skip to main content

Þorrablót 2009

Mikið fjör var á þorrablóti Skaftfellingafélagsins. Um 160 manns mætu til borðhalds og skemmtiatriða, en kvöldið hófst með því að formaðurinn Skúli Oddson bauð gesti velkomna og minntist á að ekki hefðu fleiri Öræfingar komið á samkomu hjá félaginu í seinni tíð. Taldi hann að þessi fjölgun væri í takt við hækkandi fylgi Framsóknarflokksins!!!! En aðrir vildu tengja það vandaðri dagskrá. Að inngangi loknum bauð hann Gunnar Þór Jónsson fyrrverandi starfsmann RARIK á Klaustri, nú búsettan í Hveragerði, til veislustjórnar. Stjórnaði hann borðhaldi og flutti gamanmál. Á milli ferða að borði hlöðnu öndvegis þorramat, þá leiddi galvösk sveit þéttholda karlmanna fjöldasöng við undirleik Friðriks Vignis kórstjóra Söngfélagsins. Þá söng Helena Marta (dóttir Stebba í Kotinu) við undirleik Guðríðar Helgadóttur nokkur lög, einnig stjórnuðu þær fjöldasöng og líkamsæfingum til að skapa pláss fyrir meiri mat!!! Að því loknu kom Jóhannes Kristjánsson eftirherma og sagði sögur af mönnum og málefnum.

Þá var komið að dansinum sem hófst með því að Eygló úr Öræfunum kom í fyrsti skipti fram með þessari uppsetningu eftir 33 ára hlé!!! Kom það í ljós að þeir hefðu engu gleymt og var gólfið troðið í þann eina og hálfa tíma sem þeir spiluðu. Og ekki minnkaði stuðið þegar tuttugu ára gamla unglingahljómsveitin Væringjar frá Klaustri byrjaði að spila, en þá hafði einnig bæst í hóp ballgesta töluveðrur hópur gamalla aðdáanda sem fengu nú að líta gömlu goðin í aldrei betra formi. Heyrst hefur að atvinnutilboðunum rigni inn!!!. Undu þorrablótsgestir sér vel fram eftir nóttu við dans og dufl. Og hefur það verið almanna rómur (sem aldrei lýgur) að þessi samkoma hafi tekist með eindæmum vel.

Myndir eru komnar á myndasafnið.