Skip to main content

Aðalfundur

Aðalfundur Skaftfellingafélagsins var haldinn fimmtudaginn 14. maí. Fundarstjóri var Vigfús Gunnar Gíslason frá Flögu. Ármann ritari las fundargerð síðasta aðalfundar, þá fór Skúli yfir starfsemi félagsins, sem var kraftmikil í vetur. Stefán gjaldkeri fór yfir fjárhaginn sem fór ekki varhluta af hruni bankakerfisins, en félagið stendur sterkt samt sem áður. Fýlaveisla var haldin að venju fyrsta vetrardag og þorrablót í janúar. Á báðum þessum samkomum léku fyrir dansi síungar hljómsveitir úr heimahéruðum fyrir troðfullu húsi. Þá var kennsla í Hornafjarðarmanna og mót í kjölfarið. Tvö myndakvöld með gömlum ljósmyndum og kvikmyndum úr Skaftafellssýslum. Skaftfellingamessa var haldin í Breiðholtskirkju 15. mars og komu þá prestar og söngfólk úr austursýslunni. Var sú samkoma vel sótt að vanda.
Heilmikil vinna hefur verið lögð í lagfæringar, tiltekt og skipulag í Skaftafelli, reit félagsins í Heiðmörk, en þess er vænst er að reiturinn verði tilbúinn fyrir samkomur næsta sumar þegar haldið verður upp á 70 ára afmæli félagsins.
Skýrslu Kvikmyndasjóðs flutti Erla Ásgeirsdóttir. Nú er unnið að því að endurútgefa þættina „Í jöklanna skjóli“ á DVD.
Sigurlaug Jóna Sigurðardóttir greindi frá starfsemi Söngfélagsins og Skálmar. Söngfélagið tók þátt í samkomum félagsins; Aðventustund og Skaftfellingamessu. Söngferð var að þessu sinni farin á Snæfellsnes með tvennum tónleikum í Stykkishólmi og Grundarfirði. Vortónleikar í Seltjarnarneskirkju voru svo samhliða Vorkaffi Skaftfellinga 10. maí.
Skálmar fóru í göngu í Skotlandi auk þess sem farið var á Jökulfelli í Skaftafellsfjöllum með Öræfingum.
Í lok fundarins fór Aðalsteinn Sigurgeirsson yfir skógræktina í Heiðmörk, en forsvarsmenn Skógræktarinnar hafa verið félaginu mjög velviljaðir í þeim verkum sem stefnt er að.
Heimasíðan er orðin mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins og líklega verður farið í skipulega netfangasöfnun næsta haust og í framhaldi af því verður útgáfan á fréttabréfinu minnkuð en kostnaður við útgáfu þess hefur hækkað mjög að undanförnu.
Á fundinum var núverandi stjórn endurkjörin, en hana skipa Skúli Oddsson formaður, Ármann Óskar Sigurðsson ritari, Stefán Bjarnason gjaldkeri, Helgi Pálsson og Svavar M. Sigurjónsson meðstjórnendur. Í varstjórn situr áfram Jón Geir Birgisson, en nýir í varastjórn eru Edda Sigurdís Oddsdóttir og Hákon Jón Kristmundsson

Myndir frá aðalfundinum eru komnar á myndasafnið.