Skip to main content

Söngfélagið á austurleið

Lagt var upp í vorferðina föstudaginn 18. apríl, en þá var ekið sem leið lá á Kirkju­bæjar­klaustur, þar sem sungið var á elli­heim­il­inu Klausturhólum, og síðan snædd súpa og brauð á hótelinu. Þaðan var haldið austur yfir sanda að Freysnesi í Öræfum, en þar áttum við bókaða gist­ingu í tvær nætur.
Þegar við höfðum komið okkur fyrir á hótelinu var blásið til æfingar til að slípa nokkra vankanta. Að því loknu gengu sumir til náða, en aðrir kíktu á barinn til að róa sig niður fyrir svefninn. Klukkan 10 á laugar­degin­um var svo lagt upp í sól og logni til Hafnar.
Ógleymanleg fjallasýn, þar sem fann­hvítir og hreinir jöklarnir hreyktu sér yfir tignar­leg fjöllin með sína víðfeðmu skrið­jökla.
 

Staldrað var við Jökulsárlón á Breiða­merkursandi sem var spegilslétt með fáum en fallegum ísjökum, og selum sem lágu uppi á ísröndinni í tuga - ef ekki hundraða tali. Komið var til Hafnar um hádegisbil, farið beint á hjúkrunarheimilið og sungið. Að því búnu vorum við boðin í ósvikna HUMAR-súpu hjá Buggu og fleiri félögum í Samkór Hornafjarðar.
Tónleikarnir í Hafnar­­kirkju kl. 15 voru vel sóttir og undirtektir góðar. Úr kirkjunni var gengið yfir á Hótel Höfn í kaffihlaðborð, þar sem heima­menn og kórfél­agar blönduðu geði dágóða stund.

Síðdegis var haldið sem leið lá aftur í Freysnes. Um kvöldið var smá upphitun, síðan hátíðarkvöldverður, frjáls söngur og hljóðfæraleikur fram yfir miðnætti. Samtals voru sex harmo­nikku­leikarar og tveir gítar­leik­arar sem gátu skipst á að halda uppi dampi.
Að morgni sunnudags fór nokkur hluti hópsins í klukkustundar gönguferð upp að Svína­fellsjökli.

Á hádegi var svo ekið beina leið til Víkur í Mýrdal þar sem sungið var á elliheim­ilinu Hjallatúni. Eftir pulsu og kók í Víkur­skála var haldið síðasta spölinn heim á leið og komið til bæjarins um miðaftann. Sjá fleiri myndir á www.flickr.com/photos/kristinnk      Kristinn K.

korinn-skaft-02korinn-skaft-01korinn-skaft-03korinn-skaft-04