Skip to main content

Skýrsla Skálmar 2013-2014

Skálmarar hafa gengið eins og klukkur undanfarin ár kl. 19.30, á miðvikudögum um Elliða­ár­dal (7km) og kl. 11.00  á laugardögum (hring í Heiðmörk). Yfirleitt er þetta sami kjarninn sem gengur á miðvikudagskvöldum en laugardagsgangan er sjaldnast jafn fjölmenn. Eigi að síður eru þessi tími og dagar til göngu vel kynntir meðal Skálmara og facebook notuð til þess að hvetja fólk til göngu. Ef ekki er gengin hefðbundin leið, láta menn vita á féssíðunni ef eitthvað bitastæðara býðst – og þá með frekar stuttum fyrirvara.

Miklar líkur eru á að fá félagsskap á þessum auglýsta tíma. Það er líka mikilvægt fyrir þá sem ganga allt árið að hafa göngufélaga sem fylgjast með því hverjir leggja af stað og að allir skili sér til baka.

Göngur í vetur hafa verið með hefðbundnu sniði, þó fámennari en oft áður og stafar það af slæmu færi, auk þess sem meiðsl hafa hrjáð nokkra félaga. Nánast undantekn­ingar­laust mætir alltaf einhver, en þó er ekki svo slæmt að ganga einn í nafni Skálmara.

Oftast er gengið í þéttum hópi sem leið liggur frá Lækjarási í Blesugróf upp Elliðaárdalinn upp að vatnsveitubrúnni við Sundlaug Árbæjar. Farið er yfir brúna og svo niður dalinn að hitaveitustokknum. Þegar komið er yfir hann er gengið aftur að Lækjarási í Blesugróf. Frá þessu eru þó undantekningar, því ef stöku Skálmari hefur verið í líkamsræktarátaki hefur honum verið umhugað um að sýna árangurinn með því að arka þessa leið sem er um 7km á undan félögunum á ofsahraða. Nú svo ef fæturnir eru ekki í besta formi er hægt að ganga styttri hring t.d. Stífluhringinn. Hann nær frá Stíflunni að vatnsveitubrúnni og aftur að stíflunni.

Skálmarar unnu það þrekvirki í júlíbyrjun síðasta sumar að ganga upp á Lómagnúp að austan­verðu, upp Hvirfildal. Ekki var þó farið langt fram á núpinn að þessu sinni, en útsýnið var ægifagurt. Síðan var gengið sem leið lá vestur heiðar og var komið niður snarbratta skriðu rétt vestan Núpsstaðar. Ferðin tók tíu tíma. Næstu tvo daga voru gengnir drjúgir dagpartar, þann fyrri á Síðunni með Elsu Bjarnadóttur upp frá Hörgsdal og þann seinni með Herði í Kálfafellskoti í Fljótshverfi og skoðuð einstök gljúfur og fossar upp af bæjum þeirra í báðum tilvikum. Þetta var afar vel heppnuð ferð eins og reyndar allar þær ferðir sem Skálmarar hafa staðið fyrir undanfarin ár. Endað var á grillveislu í skemmu Harðar í Kálfafellskoti með ómissandi harmonikku­­undirleik Kristins Kjartanssonar. Þessa daga hélt stærsti hluti hópsins til í Heiðarseli á Síðu, en aðrir í eigin sumarhúsum eða heimahúsum.

Þátttakendur nær 20 alla dagana, en ekki alltaf þeir sömu.

Guðrún Arnarsdóttir frá Ytra Hrauni og Lilja Magnúsdóttir á Kirkjubæjarklaustri áttu veg og vanda að stórgóðu skipulagi þessa sumarskálms.

Allir Skaftfellingar hér syðra sem áhuga hafa á göngu eru hvattir til þess að taka þátt í þessum skemmti­lega hópi.

Myndasafn Kristins Kjartanssonar  (án mynda af Lómagnúpi):