Skip to main content

Fjölmenn fýlaveisla og góð stemning

Fýlaveisla Skaftfellingafélagsins í Reykjavík hefur verið með föstu sniði undanfarna tvo áratugi og er haldin fyrsta vetrardag ár hvert í Skaftfellinga¬búð. Að þessu sinni skráðu sig 130 manns til veislunnar og áttu saman ánægjulega kvöldstund með sveitungum af öllum kynslóðum. 
Skúli Oddsson formaður félagsins setti samkomuna og stýrði borðhaldi.
Að venju var borinn fram saltaður fýll úr Mýrdalnum, veiddur af Tryggva Ástþórssyni. Rófurnar góðu komu að venju frá Þórisholti, en Inga Jóna Sigfúsdóttir matreiddi herlegheitin sem fyrr með aðstoð Rósu Haraldsdóttur. Fýllinn þótti bæði bragðgóður, feitur og pattaralegur og miklu betri en í fyrra. Nóg var af fýl fyrir alla, en auk hans var boðið upp á hangikjöt og meðlæti fyrir þá sem af einhverjum ástæðum borða ekki fýl. 
Sögumaður kvöldsins var Þorsteinn Jakobsson frá Skaftafelli sem sagði ýmsar sögur frá uppvaxtarárunum fyrir austan, m.a. svaðilförum yfir Skeiðará og aðrar ár þar eystra áður en brýrnar komu. Fróðlegar og skemmtilegar frásagnir. 
Hljómsveit skipuð Hilmari Sverrissyni og Vilhjálmi Guðjónssyni sá um dansmúsíkina og hélt uppi fjörinu fyrir gesti nokkuð fram yfir miðnætti. 
Það voru ánægðir gestir sem fóru heim af fýlaveislunni þetta árið, mettir og kátir, staðráðnir að mæta á sama tíma að ári í Skaftfellingabúð.