Skip to main content

Afmælistónleikar Söngfélagsins og Þórbergsganga

Söngfélag Skaftfellinga var formlega stofnað í núverandi mynd þann 25. mars 1973 og telst því fjörutíu ára um þessar mundir.  Í tilefni af því verður efnt til afmælistónleika fimmtudagskvöldið 4. apríl, kl. 20:00 í Seltjarnarneskirkju.

Laugardaginn 6. apríl, kl. 14 leiðir Pétur Gunnarsson rithöfundur Þórbergsgöngu. Lagt verður upp frá Þingholtsstræti 33 þar sem Þórbergur leigði kvistherbergi í húsi Þorsteins Erlingssonar. Það var jafnframt í fyrsta skipti sem hann var sér um herbergi, þá 25 ára gamall. Þaðan höldum við niður í Garðastræti og nemum staðar frammi fyrir Unuhúsi þar sem Þórbergur hafði viðkomu hjá vini sínum Erlendi að heita má daglega frá 1925 til dauðadags Erlendar í febrúar 1947. Frá Unuhúsi göngum við niður á Norðurstíg 7, svo Vesturgötu 35 og loks Stýrimannastíg 9 þar sem Þórbergur bjó í heil ellefu ár eða þar til hann gekk að eiga Margréti Jónsdóttur í október 1933.
Þetta eru þeir staðir sem heimsóttir verða og verður sögð saga Þórbergs á hverjum stað, hvað fyrir hann bar, hvað hann var að fást við, hverja hann umgekkst, o.s.frv. Allir eru þessir staðir svo að segja á lófastórum bletti og yfirferðin því ekki mikil í rúmi, en þeim mun meiri í tíma eða frá 1914 til 1933. Ef veður er mjög gott er ekkert á móti því að ganga frá Stýrimannastíg upp á Hringbraut 45 og dvelja við blokkina þar sem Þórbergur bjó frá hausti 1943 til dauðadags 12. nóvember 1974.
sngf.2013.jpg