Skip to main content

Skaftfellingamessa

Á sólríkum sunnudegi, þann 17. mars 2013, var haldin árleg Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju. Prestar kirkjunnar, sr. Bryndís Malla Elídóttir og sr. Gísli Jónasson segja það "vorboða" þegar prestar, söngfólk úr sýslum austur, auk óvenjumargra kirkjugesta flykkjast til kirkjunnar um þetta leyti og fylla hana söng og hátíðleika. Að þessu sinni sá Söngfélag Skaftfellinga í Reykjavík alfarið um söngflutning við undirleik Kristínar Jóhannesdóttur organista á Höfn og kórstjórans Friðriks Vignis Stefánssonar. Sr. Gunnar Stígur Reynisson prestur á Höfn predikaði, en auk hans sáu þau sr. Sigurður Kr. Sigurðsson sóknarprestur á Höfn og prestar Breiðholtskirkju um messugjörð. Minnst var boðunardags Maríu, 25. mars, sem Gunnar Stígur gerði að umfjöllunarefni í predikun sinni. 
Eftir messu stóð Söngfélagið og Skaftfellingafélagið fyrir messukaffi og flutti kórinn þar sex lög úr vetrardagskránni. "Vinir Skúla", þeir Skúli Oddsson, Hákon J. Kristmundsson, Sveinn H. Hjartarson, Gísli Þ. Júlíusson, Stefán Bjarnason og Helgi Gunnarsson fluttu fjögur lög við góðar undirtektir. 
Skaftfellingafélagið og Söngfélagið þakka kirkjugestum og starfsfólki Breiðholtskirkju fyrir góða samverustund.