Sumarganga Skálmar 5.-8.júlí 2012 - Náttúruperlur í Vestur –Skaftafellssýslu.
 
Enn og aftur var komið að sumargöngu Skálmara og að þessu sinni sameinuðumst við félögum úr gönguhópi Ferðafélags Íslands og samtals varð þá hópurinn um 40 manns. Nú átti að breyta til og fara í tjaldferðalag og gista út í guðsgrænni náttúrunni í 3 nætur og ferðin bar yfirskriftina Nátturuperlur í Vestur –Skaftafellssýslu. Gengið upp eftir bökkum Hólmsár alla leið í Strút. 
Fararstjórar og leiðsögumenn voru Vigfús Gunnar Gíslason frá Flögu í Skaftártungu, Gísli Már Gíslason prófessor í líffræði, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor í grasafræði. Björgunarsveitin Stjarnan í Skaftártungu sá um að trússa farangurinn milli áningastaða. Heimamenn m.a. Kristbjörg Hilmarsdóttir á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri og þær systur Heiða Guðný og Fanney Ásgeirsdætur á Ljótarstöðum í Skaftártungu slógust í ferðina og gengu með okkur dag og dag, Fanney sá reyndar líka um að keyra trússbílinn. Þau voru öll óþreytandi að upplýsa og fræða mannskapinn um dýralíf, gróður, örnefni, gömul kennileiti og auðvitað gamlar skemmtilegar afrétta –og draugasögur.
 
5.júlí
Gögnufólk kom saman við Félagsheimilið Tungusel í Skaftártungu þann 5. júlí og sumir höfðu reyndar gist þar um nóttina. Þegar búið var að koma öllu göngufólki á byrjunarreit göngunnar þar sem Leirá og Hólmsá renna saman vestan Hrífuness hófst gangan um flatlendi meðfram Hólmasánni. Veðrið var auðvitað frábært, sól með örlítilli golu skapaði góðan og afslappandi göngudag og var áætluð um 14 km ganga að fyrsta áningastaðnum í Villingaskógum. Í göngum sem þessum eru það forréttindi að hafa heimamenn með í för um svæði sem göngufólk hefur ekki áður farið, einnig grasa- og líffræðingarnir sem upplýstu okkur um gróður og náttúru. Gamalt hlaðið fjárbyrgi sem var notað á árum áður og minnir á gamla tíma og hugvit varð á vegi okkar og tilvalið að taka kaffipásu á slíkum stað. Áfram var haldið, mikið skrafað ásamt því að hlusta á leiðsögumann yfirfara fjalla- og heiðaörnefni sem voru beggja vegna Hólmsár, s.s Koltungnafjall, Hrísnesheiði, Moldrani, Rjúpnafell og Sandfell svo eitthvað sé nefnt. Við örkuðum einnig yfir lúpínuakur sem lá að Hólmsánni. Vel sást á Kötlu í Mýrdalsjökli sem slappaði af og allir voru sáttir við að hún héldi bara áfram að vera í afslöppun á þessum góðviðrisdegi. Okkur var einnig sagt frá því að einir yxi ekki langt frá Villingaskógum og áður fyrr var einirinn notaður til lækninga, líka til að búa til te og að skreyta jólatré. Við gerðum hádegis- og kaffipásum góð skil og slöppuðum vel af góðu veðri innan um frábæra göngufélaga. Þegar kom að því að fara yfir Hólmsána við Atley þá þurfti að ferja okkur á gúmmíbát og sáu bjögunarsveitarmenn úr Álftaveri um að koma okkur giftusamlega yfir straumharða jökulána. Passað var upp á að allir væru öruggir, fólk var sett í björgunarvesti og síðan var mannskapurinn ferjaður yfir í nokkrum ferðum. Eiga björgunarsveitarmann miklar þakkir fyrir að gefa sér tíma á mestu heyannatíð bændanna til að sinna um 40 manna gönguhópi á sumargöngu, því flestir þeirra ef ekki allir, eru bændur. Á fyrsta náttstaðnum í Villingaskógum þá þurftum við að bera farangurinn okkar drjúga leið í svefnstæðið okkar því að vegurinn var farinn sundur og trússinn okkar komst ekki með farangurinn alla leiðnina. En auðvitað létum við okkur hafa þetta og fórum nokkuð létt með. Eftir burð þennan þá reistum við tjöldin okkar í fallega dalnum í Villingaskógum. Kvöldganga var svo eftir að göngufólk var búið að tjalda og fá sér kvöldverð. Grasa-, líf- og plöntufræðingar upplýstu síðan mannskapinn um helstu leyndarmál og nátturulögmál plöntu og lífríkisins í kvöldkyrrðinni við fossinn í Skógá. Eftir það var gengið niður á svæðið við Bolhelli á móts við Atley þar sem að fyrirhugaða stíflu er áætlað að reisa ef áform um Hólmsárvirkjun verða að veruleika. Góður dagur var á enda, orðið frekar svalt í veðri svo það var gott að komast í svefnpokann. Það vill svo til að þarna akkúrat þar sem við vorum með tjaldbúðirnar okkar, og ef það hefði verið búið að virkja, þá værum við að sofa á margra metra dýpi því stór hluti skógarins og fossinn í Skógá fer á kaf ef af virkjunarframkvæmdum verður.
 
6.júlí
Um morguninn 6. júlí voru tjaldbúarnir vaktir upp með mjúkri rödd Þóru Ellenar sem sagði einfaldlega „halló klukkan er 7“ þetta sagði hún við hverja einustu tjalddyr á hverjum morgni, við þurftum ekki einu sinni að passa að vakna sjálf, þvílíkur lúxus. Þetta var frábært. Þegar morgunmatur og önnur morgunverk voru afstaðin þá hófum við að taka niður tjöldin okkar og bera allan farangur til baka í trússinn. Þessi dagur leit líka vel út, fínasta veður og áfram var gengið upp með Hólmsánni og áætluð dagleið var um 18 km að næsta áningastað í Tjaldgili í Ljótarstaðaheiði. Gönguhópurinn var farinn að hristast vel saman og gaman að kynnast nýju göngufólki sem hafði sama markmið að ganga um óbyggðir, sjá og heyra frásagnir leiðangursmannanna um það sem fyrir augu bar og njóta útivistarinnar í góðum hópi. Gengið var framhjá Hólmsárfossi og Fjallakofi skartaði sig þar á bökkum rétt við fossinn, fjallakofi sem gangnamenn nota þegar þeir eru að smala fé af afrétti á haustin. Áfram var gengið í fjölbreyttu landslagi á móts við Snæbýlisheiði og vakti upp ýmsar spurningar hvers vegna það ætti að setja eitt stykki virkjun svo nálægt heiðarlöndum bænda. Einnig minntist Vigfús leiðsögumaður á að talið er að birkikjarr sem er á Snæbýlisheiðinni séu leifar hinna fornu Dynskóga, skóganna sem sögur segja að hafi náð yfir stór svæði þar sem nú liggur Mýrdalssandur. Í Hólmsánni eru margir hólmar sem áin ber nafn af og urðum við vör við hópa af Helsingjum á hlaupum undan okkur og flýðu þeir yfir í hólmana í ánni og sáum við einnig ref á ferð en hann lagði auðvitað ekki í að fara í vatnselginn til að ná sér í bita. Vigfús var einnig búinn að segja okkur frá helsingjum sem eru á þessu svæði og eru varpstöðvar helsingja nær eingöngu í Skaftafellssýslum. Þeir verpa í hólmum sem eru í Hólmsánni, til að forðast refinn, því helsinginn gæti að öllum líkindum ekki hlaupið undan honum vegna þess að þeir fella flugfjaðrirnar og eru ófleygir í ca 3 vikur yfir varptímann. Kjörið svæði fyrir helsingjana að verpa í hólmunum því Hólmsáin er það vatnsmikil að þangað kemst enginn refur til að eyðileggja varpsvæðið. En, enn og aftur, með virkjun í Hólmsá þá fara sumir hólmarnir í kaf og þá verður auðveldur leikurinn fyrir lágfótu og varpstöðvar helsingjans hverfa. Kennileiti blöstu við s.s. Loðnugiljahaus og Einhyrningsaxlir voru í augsýn. Gengið var eftir Einhyrningshömrum og ótrúlegt landsvæði blasti við – vildi að allir á Íslandi gætu upplifað annað eins um óbyggðir landsins. Það var ánægður gönguhópur sem kom í Tjaldgil og auðvitað var trússin komin og allt tilbúið að fara reisa tjöldin að nýju á góðum stað. Það kom á daginn að það var nú bara nokkuð gaman að stússa í að reisa upp tjaldið og elda við prímus og vera svona ekta úti í útilegunni. Göngufólk röllti milli tjalda og spjallaði um göngudaginn og það sem framundan yrði daginn eftir. Kvöldið var frekar kalt enda vorum við komin æði langt inn í óbyggðir og viðbúið að kvöld og nætur yrðu frekar köld en frábær dagur á enda og tillhlökkun ríkjandi hjá öllum til næsta dags.
 
7.júlí
„Halló, klukkan er 7“ kvað við þýð rödd Þóru að morgni 7.júlí - mikið var þetta yndislegt. Sama tilhlökkun var í gönguhópnum að halda áfram þennan morgun eftir morgunverkin og matarnæringu. Veðrið hélt áfram að bjóða upp á góða göngu og var áætlað að um 14.km. yrðu lagðir þennan dag að síðasta náttstaðnum okkar. Enn voru leiðsögumenn óbilandi að upplýsa um fjallaheiti sem stóðu sem mest upp í sjóndeildarhringnum s.s Háalda, Mælifell við Mælifellssandinn, Svartihnúkur og svo að sjálfsögðu hann Strútur sem við vorum nú farin að nálgast. Gamlar hestagötur sem sést enn móta vel fyrir urðu á vegi okkar, fær fólk til að hugsa um eldgamla ferða- og samgöngumáta hér á öldum áður. Ekki var þægindum fyrir að fara þá eins og núna á okkar tímum. Áfram var gengið og við komum að Axlarfossi sem skartaði sínu fegursta og tilvalið að taka góða kaffinæringu þar á bökkum. Síðan var tekin góður hringur um Brytalæki og þurftum við að vaða nokkrum sinnum yfir en það er bara hressandi að kæla tærnar af og til, og einnig athuga eymsli á tám og laga betur plástra á göngublöðrum sem aðeins voru farnar að gera vart við sig. Í einu matrarhléinu fengum við m.a.frásögn frá Guðrúnu Gíslasóttur ættaðri úr Álftaveri sem sagði frá þegar afi hennar var staddur á Mýrdalssandi þegar Katla kom með öllum sínum látum og hvernig fólk barðist við að koma sér undan vatnselgnum sem fylgdi í kjölfarið og öskumyrkrinu. Ekki voru skjálftamælar til á þessum tíma og þá ekki hægt að vara fólk við að vera á ferðinni á Mýrdalssandi. Fróðleiksmolarnir héldu áfram að koma frá líffræðingum og fengum við fræðslu frá Gísla Má Gíslasyni um bitmý og eða rykmý þarna í Brytalækjum og kom það okkur almúganum á óvart að „mýfluga“ er ekki sama og „mýfluga“. Mörgum finnst nú þetta vera sama kvikindis flugan sem er að ónáða mann með því að bíta og fara í augun, nefið, eyrun og innundir fötin manns. Nei, en þetta var nú aldeilis ekki „bara mýfluga“ og fengum við nú að sjá með eigin augum púpur/lirfur neðan á steinum sem voru teknir uppúr einum lækjarfarveginum því þær festa sig við steina eða gróður á árbotnum. Þetta er auðvitað góð næring fyrir fiska og fugla það er að segja ef lirfurnar eru ekki vel faldar undir steinunum. Steinarnir voru þaktir af lirfum og púpum. Já og viti menn það er bara kvenflugan sem bítur af bitmýsflugunni og er kallaður vargur, en rykmýið bítur ekki. Ekki nóg með það því að fræðingar segja að hérledis séu til um 80 tegundir af rykmýi og um 4 tegundir af bitmýi – og fyrir mörg okkar var þetta „bara leiðinda mýfluga“ – en alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Í lok dagsins þurftum við að vaða yfir Hólmsá þar sem við settum upp tjaldbúðirnar okkar á grundinni við ána, við Svartafellstanga. Það fáheyrða gerðist þegar við vorum að komast yfir á vaðinu, þar sem við ætluðum okkur náttstaðinn þá finnur einn göngugarpanna giftingarhring í ánni rétt við bakkann – já það var giftingarhringur það fór ekki milli mála. Ekki tókst okkur að lesa neina skrift inná hringnum en ótrúlega furðurlegt að finna giftingarhring á þessum stað af öllum stöðum, lengst inná fjöllum. Skilnaður inn á miðjum afrétti hahahhahaa – kannski hefur krummi nappað honum einhverstaðar og hann borið þessa leið, þetta var nú meiri ráðgátan. Um kvöldið gekk hringberinn á biðilsbuxunum milli tjalda til að athuga hvort það gæti verið að einhver í gönguhópnum hefði á einhvern óskiljanlegan hátt misst hring þegar verið var að vaða yfir, en ekki vildu meyjarnar eða sveinarnir í gönguhópnum eiga hann – það er að segja hringinn sko! Eftir góðan kvöldverð og aðra næringu var tekin kvöldganga til að fræðast um blómaheiti, jurta- og plöntulíf svæðisins með líf- og grasafræðingum sem voru með í gönguhópnum ásamt Þóru Ellen og Gísa. Lambagras er ein af algengustu jurtum landsins og frá því í barnæsku þá man maður þetta blómaheiti og þykir alltaf jafn fallegt. Ekki hafði maður hugmynd um að hver blómaþúfan væri annað hvort karlblóm eða kvenblóm. Ef krónublöðin eru stærri og þá færri á þúfunni þá eru það karlblómi og þá að sama skapi ef þau eru minni og fleiri þá eru það kvenblómin. Já og mosi – það eru um 600 tegundir af mosa á Íslandi – vissuð þið það? Ekki ég.
 
8.júlí
Við vorum auðvitað vakin með sama hætti og hina morgnana „að klukkan væri orðin 7“ þennan síðasta göngudag. Tilhlökkun var ríkjandi í hópnum að drífa sig af stað í síðasta göngudaginn eftir hefðbundin morgunverk og voru um 18.km sem biðu okkar í göngu. Trússinn gerði farangurinn kláran á bílinn og átti að ferja hann niður í Tungusel þar sem við ætluðum að gista. Lagt var af stað og gengið um Rauðabotn sem er hluti af Eldgjánni sem nær að Vatnajölki og að sjálfsögðu var tekin góð hugleiðing um hverning gosberg myndast og við upplýst um í hvaða flokka berg skiptist frá jarðfræðingum sem voru í gönguhópnum. Ótrúlegt hvað er hægt að fræðast um lítinn stein sem verður svo merkilegur þegar búið er að yfirfara hvernig hann hafði orðið til og þá við hvaða aðstæður líka, þ.e. mikil eldgos eða aðrar nátturulegar hamfarir. Þegar við stóðum uppi á Svartahnúksfjöllum þá blöstu við okkur Hólmsárbotnarnir,sem eru upptök Hólmsár, og skörtuðu fallegum blágrænum lit og er ég alveg viss um það að þessi litur er ekki til neinsstaðar nema þarna – ótrúleg sýn yfir náttúrulegar perlur Íslands. Torfajökull, Strútur og við horfðum yfir Mælifellssand sem var frekar ógurlegur á þessum degi því mikið sand- og öskufjúk blasti við okkur af fjallinu. Við vorum æði heppin að vera fyrir ofan allt þetta sand- og öskufjúk fyrir neðan okkur. Ákveðið var að fara niður af Svartahnúksfjöllum og ganga meðfram lónunum og gekk nokkuð vel að finna góða niðurgönguleið. Frábært veður og göngufélagar gerði daginn algjörlega ógleymanlegan meðan við gengum meðfram vatnsborði Hólmsárlónanna, er hægt að óska sér betra með frásagnarglöðum einstaklingum sem gerðu umhverfið svo lifandi. Áfram var gengið gegnum sandbleytur og sprænur á aurum rétt áður en við komum að Strútslaug ,farið í fótabað og tekið gott matarhlé. Á grundinni við Strútslaugina var áður náttstaður gangnamanna og hvíldi gangnamenn. Enn þann dag í dag gegnir þessi fallega græna grund við Strútslaugina því hlutverki að hvíla göngumenn í gönguferðum. Frábært veður, sól og allt – bara frábært. Síðasti spölurinn hófst eftir þetta góða stopp og haldið í átt að Strúti sjálfum. Heitið Strútur mun vera dregið af líkingu við sérstakan höfuðbúnað kvenna sem tíðkaðist fyrrum en mér skilst að fjallið heiti fullu nafni Meyjarstrútur. Þegar við komum að Strútsrótum þá biðu okkar trússbílar sem fluttu okkur niður í Tungusel. Keyrðum síðan í gegnum sand- og öskufjúkið á Mælifellssandinum og sást ekki milli stika á tímabili svo lítið var skyggnið og við vorum fegin að vera í bílnum. Það hefði ekki verið gaman að ganga í þessu fjúki. Frábær dagur á enda og að sjálfsögðu gerðu göngumenn sér glaðan dag í ferðalok með grillveislu í Tunguseli og áttu góða stund saman. Morguninn eftir hélt fólk til síns heima og það er alveg víst að allir í gönguhópnum eru ennþá í sæluvímu yfir ósnortinni náttúrufegurð, jurta- og öðru lífríki sem þetta svæði Íslands hefur uppá að bjóða, slík upplifun lætur auðvitað engan ósnortinn. Ekki er komið á hreint hvar Skálmarhópurinn gengur næstu sumargöngu, það kemur í ljós.
 
Kæri gönguhópur takk fyrir frábæra samveru og kynningu sem gerði göngudagana svo skemmtilega.
 
Enn og aftur kærar þakkir til leiðsögumanna og fararstjóra, Vigfús, Gísli ,Þóra Ellen, Björgunarsveitin Stjarnan, björgunarsveitamenn úr Álftaveri sem og aðra sem voru með í för og sögðu frá því sem fyrir augu bar í gönguferðinni.
 
Með göngukveðjum, fyrir hönd gönguhópsins Skálmar.
Guðrún Arnarsdóttir.