Skip to main content

Undanúrslit

Undanúrslitin fóru þannig

Breiðfirðingafélagið 19 - Skaftfellingafélagið 16

Norðfirðingafélagið 20 - Dýrfirðingafélagið 16

Það eru því Breiðfirðingar og Norðfirðingar sem keppa til úrslita þann 24. apríl.
 
Myndir eru hér.

Guggurnar á Rósenberg

Næstkomandi föstudag eru tónleikar á Rósenberg sem hefjast kl 22:00. Þær Guggurnar spiluðu fyrir fullu húsi á Hornafirði fyrir nokkrum dögum síðan og fengum vægast sagt stórkostlegar viðtökur. Aðgangur kr. 1000.

Sjá auglýsingu á Fésbókarsíðu félagsins.

guggurnar.jpg

 

Afmælistónleikar Söngfélags Skaftfellinga

Vel heppnaðir afmælistónleikar Söngfélags Skaftfellinga 

Söngfélag Skaftfellinga heldur um þessar mundir upp á fjörutíu ára starfsafmæli sitt, en það var stofnað 25. mars 1973 og hefur starfað óslitið síðan. Fimmtudaginn 4. apríl voru haldnir afmælistónleikar í Seltjarnarneskirkju þar sem sungin voru ýmis lög frá nýliðnum árum, auk Skaftárþings sem er einkennislag kórsins. Tónleikarnir voru vel sóttir, nær 100 gestir áttu góða kvöldstund í kirkjunni og gerðu góðan róm af. Jóna G. Kolbrúnardóttir tvítugur sópran söng einsöng, en hún var kórfélagi í einn vetur þegar hún var 11 ára og hefur nokkur undanfarin ár sungið einsöng á vortónleikum Söngfélagsins. Með kórnum léku þeir Jón Rafnsson á kontrabassa, Matthías Stefánsson á fiðlu og Vignir Þór Stefánsson á píanó. Kórstjóri er Friðrik Vignir Stefánsson sem hefur stjórnað kórnum undanfarin 6 ár. 
Fjörutíu og einn söngfélagi sótti æfingar í vetur, en margir þeirra hafa verið viðloðandi starfið árum saman, en alltaf á sér stað ákveðin endurnýjun. Alls hafa fjórir núverandi söngfélagar sungið með kórnum frá stofnun hans, en það eru þau Einar Brynjólfsson, Páll Jóhannesson og systurnar Bjarndís og Valgerður Sumarliðadætur. 
Alls hafa fjórir kórstjórar starfað með kórnum frá upphafi, þ.e. auk Friðriks þau Violeta S. Smid, Þorvaldur Björnsson og Jón Ísleifsson sem var fyrsti stjórnandinn. 
Kórinn mun á næstunni taka upp geisladisk með fjölbreyttu lagavali frá liðnum árum. 
Myndir frá tónleikunum eru komnar hér.  

4 liða úrslit

 

Það er komið að undanúrslitunum í spurningakeppni átthagafélagana !


Fimmtudaginn 11. apríl kl. 20:00 í Breiðfirðingabúð.


Breiðfirðingafélagið mætir Skaftfellingafélaginu 

Norðfirðingafélagið mætir Dýrfirðingafélaginu


Þetta er keppni sem enginn getur látið fram hjá sér fara!


Aðgangseyrir 500 krónur

 

Afmælistónleikar Söngfélagsins og Þórbergsganga

Söngfélag Skaftfellinga var formlega stofnað í núverandi mynd þann 25. mars 1973 og telst því fjörutíu ára um þessar mundir.  Í tilefni af því verður efnt til afmælistónleika fimmtudagskvöldið 4. apríl, kl. 20:00 í Seltjarnarneskirkju.

Laugardaginn 6. apríl, kl. 14 leiðir Pétur Gunnarsson rithöfundur Þórbergsgöngu. Lagt verður upp frá Þingholtsstræti 33 þar sem Þórbergur leigði kvistherbergi í húsi Þorsteins Erlingssonar. Það var jafnframt í fyrsta skipti sem hann var sér um herbergi, þá 25 ára gamall. Þaðan höldum við niður í Garðastræti og nemum staðar frammi fyrir Unuhúsi þar sem Þórbergur hafði viðkomu hjá vini sínum Erlendi að heita má daglega frá 1925 til dauðadags Erlendar í febrúar 1947. Frá Unuhúsi göngum við niður á Norðurstíg 7, svo Vesturgötu 35 og loks Stýrimannastíg 9 þar sem Þórbergur bjó í heil ellefu ár eða þar til hann gekk að eiga Margréti Jónsdóttur í október 1933.
Þetta eru þeir staðir sem heimsóttir verða og verður sögð saga Þórbergs á hverjum stað, hvað fyrir hann bar, hvað hann var að fást við, hverja hann umgekkst, o.s.frv. Allir eru þessir staðir svo að segja á lófastórum bletti og yfirferðin því ekki mikil í rúmi, en þeim mun meiri í tíma eða frá 1914 til 1933. Ef veður er mjög gott er ekkert á móti því að ganga frá Stýrimannastíg upp á Hringbraut 45 og dvelja við blokkina þar sem Þórbergur bjó frá hausti 1943 til dauðadags 12. nóvember 1974.
sngf.2013.jpg

Sigurgangan heldur áfram

Átta liða úrslitin voru æsispennandi en þar unnu Skaftfellingar Sléttuhrepp.
 
Nú bíða allir spenntir eftir fjögurra liða úrslitunum 11. apríl en þá munu keppa: 
Skaftfellingafélagið - Breiðfirðingafélagið
Norðfirðingafélagið - Dýrfirðingafélagið