Skaftfellingafélagið í Reykjavík

Skaftfellsku eldfjöllin Katla og Öræfajökull seiddu fjölda fólks á fyrirlestra vísindamanna um þau í Breiðfirðingabúð síðasta fimmtudagskvöld, 8. nóvember. Samkoman hafði yfirskriftina Kötlukvöld og var haldin í tilefni þess að hundrað ár eru frá síðasta Kötlugosi. Það voru Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og Guðrún Gísladóttir landfræðingur sem þar miðluðu fólki af visku sinni og þekkingu á eftirminnilegan hátt, með frásögnum, kortum og myndum.
Eðlilega var Katla aðalviðfangsefnið en eftir kaffihlé átti Öræfajökull athyglina.
Stjórn Skaftfellingafélagsins hafði raðað upp um 50 stólum áður en gestir fóru að láta sjá sig. Hún þurfti heldur betur að endurskoða sínar áætlanir því mætingin fór fram úr villtustu væntingum. Áður en við var litið var hver einast stóll hússins setinn. Það dugði þeir ekki til þannig að sumir sátu á borðum aftast í salnum, aðrir tylltu sér á hljómsveitarpallinn. Reiknast húsfreyju búðarinnar til að gestir hafi verið 170 til 180 talsins.
Magnús Tumi gerði sögu eldfjallanna góð skil af ástríðu en líka yfirvegun og yfirlætisleysi, eins og honum er lagið. Hann sýndi á kortum þær landbreytingar sem orðið hafa í tímans rás af völdum eldfjalla og árstrauma og hvað þær breytingar gætu þýtt þegar og ef til nýrra jökulflóða kemur vegna gosa.
Guðrún sagði frá aðstæðum íbúa í Álftaverinu þegar Katla gaus árið 1918 og eyðingu landgæða og hlunninda sem hamfarirnar höfðu í för með sér í þeirri sveit. Það gerði hún á áhrifamikinn hátt. Flestir karlmenn Versins voru staddir á Mýrdalssandi með fjárrekstra vegna eftirleita þegar ósköpin dundu yfir og hún sýndi á kortum hvar þeir voru niðurkomnir. Allir björguðust þó undan flóðinu á fráum hestum sínum og skall þar hurð nærri hælum. Sumir létu fyrirberast í útihúsum við bæinn Skálmabæjarhraun yfir nóttina, ásamt heimilisfólki þar, en áhyggjur af afdrifum fjölskyldna þeirra heima voru þjakandi.
Á bæjunum niðri í Veri brást fólkið líka hárrétt við aðstæðum, minnugt frásagna af fyrri hlaupum, þjappaði sér saman á þá staði sem hæstir eru í landinu og bjargaðist. Flest var samankomið í fjárhúsi í svokölluðu Virki, syðst í sveitinni. Æ síðan átti það minningar um langa nótt við drynjandi vatnanið, brak í jökum og eldingaleiftur, öðru nafni reiðarslög.
Kötlugos hefur verið yfirvofandi lengi og eldstöðin Öræfajökull fór að sýna lífsmark fyrir ári síðan. Engu vildi Magnús Tumi spá um hvenær gosa væri að vænta næst en sagði vísindamenn fylgjast grannt með báðum vígstöðvum og stefnt væri að því að rýma svæðin frekar of oft en einu sinni of sjaldan.

Heimilsfang

Starfsemi félagsins fer fram í Breiðfirðingabúð Faxafeni 14.

Póst til Skaftfellingafélagsins, Söngfélags og Kvikmyndasjóðs skal senda á:

Pósthólf 9105

129.Reykjavík

Auglýsingar

heidmork

 

songfelagid

 

skalm

 

kvikmyndaklubbur

 

ftspor fors

 dynskogar